Skip to main content

-ráðlagður dagskammtur er 500 gr.

Rífleg neysla grænmetis og ávaxta virðist minnka líkur á mörgum langvinnum sjúkdómum, þar á meðal hjarta- og æðasjúkdómum, ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki af gerð 2 og offitu. Hollusta ávaxta og grænmetis er meðal annars fólgin í ríkulegu magni af trefjum, fólasíni, kalíum, magnesíum, andoxunarefnum eins og C- og E-vítamínum, karótenóíðum og flavenóíðum og fleiri lífvirkum efnum, eins og plöntuestrógenum og öðrum plöntuefnum. Öll þessi efni eru talin eiga þátt í verndandi áhrifum þessara matvara gegn sjúkdómum. Það er trúlega ekki síður samspil þessara mörgu ólíku efna í ávöxtum og grænmeti sem hefur verndandi áhrif. Áhrifin virðast meiri eftir því sem meira er borðað af mismunandi tegundum ávaxta og grænmetis en einstök efni í töfluformi veita ekki sömu áhrif.

Aukum neysluna

Þrátt fyrir að grænmetis- og ávaxtaneysla Íslendinga hafi aukist töluvert á undanförnum árum er hlutur þessara fæðutegunda enn tiltölulega rýr í fæði okkar. Grænmetis- og ávaxtaneyslan er helmingi minni en hvatt er til í ráðleggingum sérfræðinga. Íslensk börn borða líklega minnst allra barna í Evrópu af ávöxtum og grænmeti. Veruleg ástæða er því til að auka neysluna og hafa þar með jákvæð áhrif á heilsufar þjóðarinnar.

Aukin ávaxta- og grænmetisneysla auðveldar þyngdarstjórnun

Aukin neysla ávaxta og grænmetis hefur margvíslega kosti umfram bein heilsufarsleg áhrif. Rífleg neysla á trefjaríkum fæðutegundum á borð við grænmeti og ávexti getur líka

verið liður í baráttu gegn offitu og stuðlað að eðlilegri líkamsþyngd þar sem þær veita mettunartilfinningu og fyllingu en tiltölulega litla orku. Sætir ávextir eru einnig

góður kostur í stað sætmetis.

Veljum sem flestar tegundir og matreiðsluaðferðir

Mikilvægt er að borða fjölbreytt úrval af bæði grænmeti og ávöxtum, fimm skammta á dag, eða 500 grömm. Fjölbreytni fæst með því að velja bæði gróft og trefjaríkt grænmeti, svo sem spergilkál, hvítkál, blómkál, gulrætur, rófur, rauðrófur, lauk og baunir, en einnig fínni, vatnsmeiri tegundir, svo sem tómata,agúrkur, salat og papriku. Fjölbreytnin verður svo enn meiri ef grænmetið er borðað bæði ferskt og matreitt. Þar sem ávaxtasafar eru tiltölulega orkuríkir er ekki rúm fyrir meira en eitt glas af safa í ráðlögðum dagskammti. Hins vegar er óhætt að borða ávexti og grænmeti umfram ráðlagðan dagskammt.

Heimild: www.landlaeknir.is

Matartíminn er í eigu Sölufélags Garðyrkjumanna

Close Menu

Opnunartími Matartímans er sem hér segir:
Mánudaga til Föstudaga : 08:00 til 16:00

Ef þig vantar frekari upplýsingar þá skaltu endilega
hafa samband við okkur.

Matartíminn
Brúarvogi 2,
104 Reykjavík

570 8900
matartiminn@matartiminn.is