Hugsar þú um það hvað þú gefur barninu þínu að borða? Svarið er líklega já.
Þú telur þig allavega gera það, ekki satt? En erum við í alvöru að hugsa um að börnin fái fæðu úr öllum fæðuflokkum daglega? Og hvað með sykurinn? Margir foreldrar gera sér enga grein fyrir því sykurmagni sem er í mörgum fæðutegundum sem við gefum börnum okkar, t.d. í morgunkorni og mjólkurvörum. Sumar tegundir af morgunkorni eru það sykraðar að þær eru meira í ætt við sælgæti en hollan morgunverð og sama verður sagt um margar mjólkurvörur.
Veistu að í mjólkurvörum eins og t.d hrísmjólk er allt að 27% kolvetni, í engjaþykkni er það allt að 20% og í þykkmjólk allt að 16%. Í öðrum mjólkurvörum eins og hreinu skyri er ekki nema 3% kolvetni, 3-4% í hreinni súrmjólk og 3-4% í hreinu jógúrti. Það kolvetni sem er umfram í sætu mjólkurvörunum er í flestum tilfellum viðbættur sykur.
Veljum frekar að gefa börnunum okkar hreinar mjólkurvörur en þær sem eru með viðbættum sykri. Venjum þau á það strax að fá hreinar vörur því þá sækja þau ekki í þær sykruðu. Ekki sykra skyrið hjá barninu. Þó svo að þér finnist það ekki gott ósykrað er ekki þar með sagt að barninu þínu finnist það, sérstaklega ef það hefur ekki smakkað sykrað skyr.
Þegar rætt er um sykur er mikilvægt að gleyma ekki muninum á fínunnum sykri og öðrum kolvetnum, sem einnig eru kölluð sykrur. Sykrur eru í fjölda matvæla svo sem kartöflum, grjónum, núðlum, brauði, grænmeti og ávöxtum og er þar um að ræða holla og nauðsynlega orkugjafa. Öðru máli gegnir um fínunninn sykur, sem finna má í gosi, sætum ávaxtasöfum, sælgæti, kökum, kexi, mjólkurvörum og morgunkorni. Neysla á fínunnum sykri, sem bætt er í drykki og matvæli er allt of mikil hér á landi.
Kolvetnaneysla barna og unglinga einkennist af mikilli sykurneyslu, 15% orkunnar í fæði þeirra fást úr fínunnum sykri en meðal fullorðinna er hlutur sykurs mun minni eða 8% orku.
Samkvæmt ráðleggingum Manneldisráðs er ekki æskilegt að fá meira en 10% orkunnar úr sykri. Helstu rök gegn óhóflegri sykurneyslu eru þau að verði sykurinn mjög fyrirferðamikill í daglegu fæði er hætt við að minna verði um nauðsynleg næringarefni. Sykur, sætindi og svaladrykkir koma þá í stað annarra næringarríkra matvæla en viðbættur sykur veitir það sem oft er kallað tómar hitaeiningar.
Við þurfum að huga betur að því hvað börnin okkar eru að borða. Mjög mörg börn eru farin að borða sælgæti fyrir eins árs aldur. Til hvers? Hvers vegna erum við að bjóða þeim sælgæti og hver er ávinningurinn fyrir þau? Jú þeim finnst þetta líklega gott og við viljum vera góð við þau, ekki satt. En það eru til hollari leiðir til að vera góð við börnin okkar. Ef þau kynnast ekki sælgæti, þá eru þau ekkert sólgin í það. Börn læra líka hvað fyrir þeim er haft. Við erum fyrirmyndirnar. Ef við borðum sælgæti fyrir framan þau sjá þau að það er í lagi að borða nammi. Ef við viljum fá okkur sætindi, nýtum þá frekar nammidagana.
Foreldrar og börn þurfa að læra að setja saman hollt fæði, gæta hófsemi og auka fjölbreytni fæðisins. Sætt bragð þykir flestum gott og ekki má gleyma að það er félagsleg athöfn að borða. Sykur er munaður og ber að meðhöndla hann sem slíkan. Ef maturinn er hollur og næringarríkur að öðru leyti er sykur í hófi sæt tilbreyting.
Höfundur: Alma María Rögnvaldsdóttir, Hjúkrunarfræðingur