Öll vitum við að með því að auka grænmetisneyslu barna okkar verður fæða þeirra næringarríkari. Oft getur þó verið erfitt að fá þau til að neyta grænmetis meðal annars vegna þess að það er ekki eins sætt og ávextir. Framreiðsla á grænmetinu skiptir einnig miklu máli til þess að gera það meira spennandi í augum barnanna.
Fyrst og fremst þarf grænmetið að vera til á heimilinu og aðgengilegt fyrir börnin.
Það er svo hlutverk okkar foreldranna að gera grænmetið þannig að börnunum finnist það spennandi.
Börnin fara síður sjálf í ísskápinn til að sækja það. Við þurfum að gera þeim það sýnilegt og aðgengilegt. Kaupa til dæmis litlar gulrætur sem ekki þarf einu sinni að skola. Skera niður gúrkuna og kaupa jafnvel litla tómata – kirsuberja- eða konfekttómata sem líta út eins og litlir sælgætismolar. Paprikurnar eru líka gómsætar og þá sérstaklega þær gulu, rauðu og appelsínugulu. Auðveldast fyrir börnin er að fá þær í strimlum.
Ef börnum finnst eitthvað ákveðið grænmeti vont eða jafnvel halda því fram að allt grænmeti sé vont er um að gera að fara fram á að þau smakki alltaf einn bita þegar það er í boði. Munið bara að sum börn þurfa að smakka nýjan mat allt að fjórtán sinnum áður en þeim líkar hann. Gefist því ekki upp á því að láta börnin smakka því einn daginn gæti þeim líkað við það sem þeim hefur hingað til ekki fundist gott.
Leyfið börnunum að vera með í valinu á því grænmeti sem á að fylgja máltíðinni eða milli mála. Börn eru líklegri til að borða þá fæðu sem þau taka þátt í að velja og útbúa.
Lykillinn að því að fá börnin til að borða hollar er að holla fæðan sé hluti af daglegri fæðu fjölskyldunnar, sé alltaf til taks og tilbúið til að borða. Ef grænmetið er alltaf í boði, taka þau ekki einu sinni eftir því að þau séu farin að borða hollar.
Framreiðslan skiptir miklu mál. Að elda grænmetisfæði er almennt einfalt og svo er það auðvitað mjög góður matur. Með því að elda góða grænmetisrétti eins og til dæmis pottrétti eða grænmetisbuff er hægt að uppfylla daglega grænmetisþörf barnanna með einni máltíð.
Ráðlagt er samkvæmt manneldismarkmiðum að borða 5 skammta eða minnst 500 grömm af grænmeti, ávöxtum og safa á dag. Þar af a.m.k. 200 grömm af grænmeti og 200 grömm af ávöxtum. Einn skammtur getur verið einn meðalstór ávöxtur, 75-100 grömm af grænmeti (þ.e. 1 desilítri af soðnu grænmeti eða 2 desilítri af salati) eða glas af hreinum ávaxtasafa. Börn þurfa þó heldur minni skammta. Þumalputtareglan er að einn skammtur sé ein teskeið fyrir hvert ár barna eins til sex ára.
5 á dag ráðleggingarnar fela í sér a.m.k. einn A og C vítamínríkan ávöxt eða grænmeti á dag. A vítamín finnum við í apríkósum, papaya, mangó og cantaloupe melónum. A vítamín er einnig í grænlaufa grænmeti eins og brokkólí, gulrótum, sætum kartöflum og rósakáli. Grænmeti og ávextir sem eru rík af C vítamíni eru til dæmis sítrus ávextir, cantaloupe melónur, papaya, mangó, ferskjur, kiwi, jarðaber, paprikur, brokkólí, tómatar, sætar kartöflur og kartöflur með hýði.
Höfundur: Alma María Rögnvaldsdóttir, hjúkrunarfræðingur